Stutt ágrip af sögu MÍR

Félagið var stofnað í marsmánuði 1950 og hlaut nafnið Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnaríkjanna, skammstafað MÍR, en orðið mír í rússnesku þýðir í senn friður og heimur. Þegar Sovétríkin (Ráðstjórnarríkin) liðuðust í sundur í árslok 1991 var óhjákvæmilegt að breyta nafni félagsins og takmarka starfsvið þess.

Á aðalfundi í mars 1992 var nafninu breytt í Félagið MÍR og nú má lesa úr þeim þremur stöfum heitið Menningartengsl Íslands og Rússlands. Megintilgangur félagsins er í dag sá sami og var í upphafi: að stuðla að auknum og gagnkvæmum samskiptum þjóðanna á sviði menningar í víðtækasta skilningi þess orðs. Gjörbreytt viðhorf og aðstæður valda því að sjálfsögðu að félagstarfið hefur breyst mjög í áranna rás.

Sagan 

Ágrip af sögu MÍR

 

Árið 1932 var Sovétvinafélag Íslands stofnað í þeim tilgangi að halda uppi kynningu og menningarlegu sambandi við Ráðstjórnarríkin. Hélt félagið úti tímariti og starfaði af talsverðum krafti um skeið, gaf ma. út tvær ferðabækur frá Ráðstjórnarríkjunum, "Í austurvegi" eftir Halldór Kiljan Laxness og "Rauðu hættuna" eftir Þórberg Þórðarson. Seinna dofnaði yfir félagsskapnum og hann lognaðist alveg

út af 1938. Kristinn E. Andrésson magister, bókmenntafræðingur og síðar alþingismaður, var driffjöðrin í félagsstarfinu á þessum árum.

 

Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar kynntu Sovétríkin sig sjálf með afrekum sínum og hetjudáðum í baráttunni við innrásarheri fasista og má því segja að félagsskapur til frekari kynningar hafi í raun verið óþarfur. En þegar hið svokallaða kalda stríð magnaðist um allan helming með stofnun NATO 1949, þótti nokkrum íslenskum rithöfundum og menntamönnum afar brýnt orðið að stofna til félagsskapar, sem mótvægi væri við einhliða fréttaflutningi og áróðri vesturveldanna og reyna þannig að brjóta skarð í þann múr vanþekkingar, sem staðið hafði um árabil milli íslenskra og sovéskra mennta. Með stofnun félagsins var ætlunin að skapa menningartengsl milli þjóðanna, ma. með samstarfi við félög og stofnanir, sem sinntu hliðstæðu verkefni í Ráðstjórnarríkjunum, afla heimilda þaðan, útvega kvikmyndir, bækur og tímarit, kynna Íslendingum menningu, vísindi og þjóðfélagshætti sovétþjóðanna, gangast fyrir fræðsluerindum og greiða fyrir ferðalögum þangað. Jafnframt var ætlunin að stuðla að frekari kynnum á íslenskri menningu í Sovétríkjunum. Boðað var til stofnfundar félagsins 12. mars 1950 í einum af fundarsölum Reykjavíkur á þeim tíma, en svo mikil var aðsóknin að fjöldi manna varð frá að hverfa vegna þrengsla og var því haldinn framhaldsstofnfundur viku síðar, 19. mars. Þá voru félagslög samþykkt, þar sem markmiðum félagsins var lýst með líkum hætti og greint var hér að framan, og kosin félagsstjórn. Forseti félagsins var kjörinn Halldór Kiljan Laxness rithöfundur og varaforseti Þórbergur Þórðarson rithöfundur, en aðrir í félagsstjórninni voru kunnir Íslendingar úr röðum menntamanna og verkalýðsleiðtoga. Aðalforgöngumaður að stofnun MÍR og "primus motor" í félagsstarfinu fyrstu tvo áratugina var þó Kristinn E. Andrésson bókmenntafræðingur, útgefandi og um skeið alþingismaður. 

 

Félaginu var á stofnfundi valið nafnið Menningartengsl Íslands og Ráðstjórnarríkjanna, með skammstöfunina MÍR í huga. Það rússneska orð sem lesið var úr skammstöfuninni festist síðan svo rækilega við félagið, að þegar Ráðstjórnarríkin liðu undir lok og ákveðið var á aðalfundi í mars 1992 að halda allt að einu áfram starfi félagsins með menningarleg tengsl Íslands og Rússlands fyrst og fremst í huga, var heitið Félagið MÍR, Menningartengsl Íslands og Rússlands, tekið upp. 

 

Áhugi á starfi MÍR var mikill og almennur í upphafi, félagsdeildir voru stofnaðar um land allt og skráðir félagar orðnir talsvert á annað þúsundið strax á fyrstu mánuðum. Félagsstarfið stóð með blóma um árabil og á vegum MÍR og fyrir tilstuðlan og með styrk sovéskra samstarfsaðila félagsins, VOKS og SSOD komu til landsins margir frábærir listamenn á sviði tónlistar, danslistar, myndlistrar og bókmennta. Nægir að nefna nöfn eins og tónskáldið Aram Khatsatúrjan, píanóleikarana Tamöru Gúsjevu, Tatjönu Kraftsjenko og Tatjönu Nikolajevu, sellóleikarann Mstislav Rostropovits, fiðluleikarana Rafael Soboljevskí og Edvard Gratsj, söngvarana Nadezdu Kazantsévu, Pavel Lisitsían, Sergei Sjaposnikov og Grígorí Nesterov, rithöfundana Boris Polevoj, Arkadí Perventsév og Anatólí Sofronov. Kunnir sérfræðingar í ýmsum fræðigreinum lögðu einnig leið sína til Íslands frá Moskvu, sem og félagsmálafrömuðir. Til Sovétríkjanna fóru svo allmargar sendinefndir á vegum MÍR og í boði samstarfsaðila félagsins ytra og voru þær yfirleitt skipaðar þekktum mönnum í íslensku þjóðlífi, rithöfundum og skáldum og öðrum listamönnum, vísinda- og fræðimönnum, forystumönnum verkalýðs- og launþegasamtaka. Má segja að margir fremstu rithöfundar og skáld Íslands hafi, auk þeirra Halldórs Laxness og Þórbergs Þórðarsonar, tekið með einum eða öðrum hætti þátt í félagsstarfi MÍR og viðurkennt það sem merkilegt framlag til íslensks menningarlífs, framlag sem víkkaði til muna alþjóðlegan sjóndeildarhring Íslendinga. Það eru reyndar engar ýkjur að segja að MÍR hafi á fyrstu starfsárunum verið aðaltengiliður Íslendinga við menningu þeirra þjóða sem byggðu Sovétríkin á þessum tíma, en einkum þó hina gamalgrónu og auðugu rússnesku menningu. Það orð fór snemma af tónleikum og danssýningum MÍR að þar væri aðeins boðið upp á listflutning í hæsta gæðaflokki. "Rússarnir senda aldrei frá sér aðra listamenn en þá sem í fremstu röð standa", sögðu menn og hefur þetta góða orðspor haldist æ síðan. Klassískum listdansi á heimsmælikvarða kynntust Íslendingar fyrst á skemmtunum MÍR víðsvegar um landið. 

 

Eftir hið kröftuga félagsstarf fyrstu árin dró smám saman nokkuð úr því af ýmsum ástæðum. Þegar íslensk stjórnvöld juku samskipti sín við ríkisstofnanir og aðra opinbera aðila þar eystra breyttist frumhlutverk MÍR og verkefni sem félagið hafði áður tekið að sér færðust til stofnana ríkisins á Íslandi, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka. Breytt viðhorf vegna ýmissa stórpólitískra atburða erlendis urðu líka til þess að úr félagsáhuga og starfi dró og eftir atburðina í Tékkóslóvakíu 1968 voru jafnvel uppi raddir innan félagsstjórnarinnar um að leggja ætti félagið niður. Það var

þó ekki gert sem betur fer og sá kjarni félagsstjórnar, sem tók við á árunum 1972-74 og hefur síðan stýrt félaginu, einsetti sér að vinna eftir efnum og ástæðum að meginmarkmiðum félagsins um gagnkvæma kynningu þjóðanna. 

 

Nokkur þáttaskil urðu í félagsstarfi MÍR, þegar undirritaður var sérstakur samstarfssamningur félagsins og samstarfsaðila þess í Moskvu 1975. Í samningi þessum var gert ráð fyrir að aðilar kæmu sér fyrirfram saman um samstarfsáætlun ár hvert. Á grundvelli samstarfssamningsins var starfsáætlun vegna ársins 1976 gerð og meðal nýjunga, sem þar voru nefndar, var framkvæmd Sovéskra daga MÍR. Næstu árin voru slíkir kynningardagar haldnir á Íslandi og þjóðmenning og þjóðlíf eins hinna 15 sovétlýðvelda kynnt sérstaklega hverju sinni. Komu þá til landsins margir fremstu listamenn hvers lýðveldis, þjóðlaga- og dansflokkar, ma. Ríkisdansflokkur Grúsíu

undir stjórn Tengis Sukhishvili og þjóðlagaflokkurinn Rossía undir stjórn Viktors Grídin. Einnig má nefna söngvarana Anatólí Mokrenko, Anu Kaal, Eduardas Kaniava,Nínu Kozlovu, Ljúdmilu Zykinu, Maríu Bieshú og Mikhaíl Múntjan. 

 

Með umbyltingunni sem varð á árinu1991 og falli Sovétríkjanna í árslok voru enn uppi raddir um að leggja ætti félagið niður, hlutverki þess væri lokið. En eins og áður varð það sjónarmið ofan á að halda skyldi starfseminni áfram, næg verkefni væru framundan til eflingar gagnkvæmra menningartengsla Íslands og Rússlands og jafnframt talið nauðsynlegt að viðhalda samhenginu í því kynningarstarfi sem unnið hafði verið um nokkurra áratuga skeið. Reynsla undanfarinna ára sýnir að grundvöllur fyrir starfi MÍR er enn fyrir hendi - og þörfin líka. 

 

Kynningarstarf MÍR hefur frá upphafi verið mörg fjölbreytt, ekki bara á sviði tónlistar, danslistar og bókmennta, eins og fyrr er að vikið. Myndlistarsýningar hafa og verið fjölmargar og með þeim hafa komið kunnir listamenn, ma. málarinn Orest Verejskí. Ljósmyndasýningar af ýmsu tilefni hafa og verið fyrirferðarmiklar í félagsstarfinu, bæði sýningar sem tengjast merkum viðburðum í sögu Rússlands eða merkisdögum skálda og listamanna o.s.frv. Námskeið í rússnesku hafa verið haldin á vegum félagsins allt frá fyrsta starfsári þess og oft með sérstökum tilstyrk samstarfsaðilanna í Moskvu. Fyrirlestrar hafa verið haldnir fjölmargir um hin margvíslegustu efni og hingað komið af því tilefni sérfræðingar á ýmsum sviðum vísinda og þjóðmála. MÍR hefur oft staðið fyrir skákkeppni og fjöltefli, þar sem almenningi gafst kostur á að etja kappi við ýmsa fremstu skákmeistara heims. Iðulega hefur félagið haft samvinnu við opinbera aðila eða félagasamtök um merka kynningarviðburði - og svo framvegis.

 

Með falli Sovétríkjanna í árslok 1991 urðu óhjákvæmilega miklar og afdrifaríkar breytingar á starfi MÍR og starfsaðstöðu allri. Þá var með öllu skrúfað fyrir þann mikilvæga stuðning sem hinir sovésku samstarfsaðilar höfðu veitt félaginu frá stofnun þess, ma. með því að standa aö öllu leyti eða hluta til undir kostnaði við ferðir listamanna og annarra sendinefndarmanna til Íslands og að taka þátt í kostnaði

við ferðir íslenskra sendinefnda til Sovétríkjanna. Einnig tók þá nær alveg fyrir sendingar hverskonar upplýsingaefnis, ljósmynda og annars sýningarefnis, td. bókasýninga sem félagið gekkst nokkrum sinnum fyrir í samvinnu við sendiráðið. En þá keypti MÍR á góðu verði nokkur hundruð bókatitla og hafði til sýnis fyrir almenning, seldi að sýningu lokinni hluta bókanna svo að nægði fyrir kostnaði við innkaupin, en þær bækur sem ekki seldust fóru til bóksafns MÍR sem stækkaði ört

á þessum árum og telur nú 8-9 þúsund bindi. Annar mikilvægur þáttur í starfi MÍR sem lagðist af þegar Sovétríkin liðu undir lok voru hópferðirnar sem félagið skipulagði og stóð fyrir á níunda áratug síðustu aldar í samvinnu við íslensk flugfélög og ferðaskrifstofur erlendis, ma. Intourist í Moskvu. Farnar voru 8 slíkar ferðir á

vegum MÍR, sem allar tókust með afbrigðum vel, en engar tvær ferðirnar voru eins, þannig að þeim sem tóku þátt í þeim öllum gafst kostur á að heimsækja öll þáverandi 15 lýðveldi Sovétríkjanna. Fyrir tilstuðlan þessara ferða bættust MÍR margir virkir og nýtir félagar. - Í framhaldi af því sem sagt var áður um að klippt hafi verið að mestu leyti á samskipti við fyrrum samstarfsaðila MÍR í Moskvu

við umskiptin 1991 er rétt að taka það fram að félagið hefur alla tíð notið góðrar fyrirgreiðslu og aðstoðar sendiráðs Rússneska sambandsríkisins í Reykjavík og sendiherrar og aðrir starfsmenn sendiráðsins jafnan lagt sig fram um að liðsinna

og aðstoða MÍR eftir bestu getu hverju sinni. Samvinnuverkefni sendiráðs og félagsstjórnar hafa verið allnokkur og yfirleitt tekist vel.

 

Síðustu tvo áratugina hefur félagsstarf MÍR einkum verið fólgið í reglubundnum kvikmyndasýningum, sýningarhaldi af ýmsu tagi, fyrirlestrahaldi og rússneskunámskeiðum. Frá miðjum september fram í miðjan maí ár hvert eru rússneskar og annarra þjóða kvikmyndir sýndar á hverjum sunnudegi í húsakynnum MÍR, mestan part gamlar myndir úr safni félagsins meðan filmusafn þess var enn 

i vörslu þess, en síðar, eftir að Kvikmyndasafn Íslands tók við filmunum og sýningartækjum, hafa verið sýndar myndir af ýmsu tagi af VHS-spólum og DVD-diskum, langflestar rússneskar/sovéskar en einnig kvikmyndir frá öðrum þjóðlöndum, myndir sem tengjast Rússlandi efnislega á einhvern hátt eða rússneskri menningu og sögu. Í sýningarsölum hafa verið settar upp margvíslegar sýningar, ma. sýningar rússneskra myndlistarmanna. Í tilefni 200 ára afmælis Alexanders Púshkíns á árinu 1999 var td. sett upp myndarleg sýning um skáldið og MÍR hafði samvinnu við Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn um aðra sýningu um skáldið og kvöldsamkomu í Þjóðarbókhlöðunni nýju í Reykjavík. Oft hefur sigursins á herjum fasista verið minnst með sýningum ljósmynda og grafikverka og þá sýndar heimildarkvikmyndir um stríðsátökin á austurvígstöðvunum. Til að auka aðstreymi fólks að félagsheimili MÍR og vekja frekari athygli á félaginu hafa ýmsir íslenskir listamenn og félagasamtök fengið tímabundin afnot af húsakynnum félagsins. Þannig urðu sýningarsalir félagsins og bíósalurinn vettvangur dagskrár Reykjavíkur - menningarborgar Evrópuhelgina 27. og 28. maí 2000, þegar sýning á verkum barna var sett þar upp. Gífurleg aðsókn var að þessari sýningu, skiptu sýningargestir nokkrum þúsundum og komust þannig óbeint í snertingu við kynningarstarf MÍR. Síðustu árin hafa félagasamtök Rússa á Íslandi og söfnuður Rétttrúnaðarkirkjunnar fengið inni í MÍR-salnum með samkomur og sýningar og safnaðarkórinn æft þar reglulega undanfarin misseri.

 

MÍR var lengst af til húsa í leiguhúsnæði í eða rétt utan við miðborg Reykjavíkur. Á árinu 1985 réðst félagsstjórn í að kaupa gömul hús í miðborginni og lagfæra svo að hentaði félagsstarfinu. Í þessi fasteignakaup var unnt að ráðast vegna höfðinglegrar peningagjafar gamals MÍR-félaga og mikillar og óeigingjarnrar sjálfboðavinnu stjórnarmanna og fleiri félaga. Kaupverð fasteignarinnar var viðráðanlegt félaginu vegna þess að húsakynni voru í afar lélegu ásigkomulagi og þörfnuðust mikilla lagfæringa, sem unnar voru nær eingöngu í sjálfboðavinnu MÍR-félaga í frístundum þeirra. Reyndar hefur allt félagsstarf MÍR byggst á sjálfboðavinnu frá árinu 1974; launaður starfsmaður hefur ekki verið við félagið síðan þá. 

 

Eins og áður var sagt var Halldór Kiljan Laxness rithöfundur og Nóbelsverðlaunahafi kjörinn formaður (forseti) MÍR á stofnfundi 1950 og Þórbergur Þórðarson rithöfundur varaformaður. Þeir voru síðan endurkjörnir til forystu næstu 18 árin (Þórbergur var reyndar varaformaður áfram tvö ár til viðbótar). Aðaldrifkraftur

félagsstarfsins þessi upphafsár var þó Kristinn E. Andrésson magister. Hann tók við formannsstarfinu af Halldóri og síðan varð Árni Bergmann rithöfundur formaður um skeið, en Ívar H. Jónsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans og fjármálastjóri Þjóðleikhússins var kjörinn formaður MÍR 1974 og hefur verið það síðan. Gunnlaugur Einarsson iðnverkamaður hefur alla tíð verið nánasti samstarfsmaður Ívars og um langt skeið varaformaður. Á tímabili á áttunda áratugnum var Margrét Guðnadóttir prófessor í læknisfræði varaformaður. Núverandi varaformaður er Einar Bragason trésmiður

 

Í Félaginu MÍR, Menningartengslum Íslands og Rússlands, eru nú skráðir um 100 félagsmenn, auk 6 erlendra heiðursfélaga sem búsettir eru í Pétursborg, Moskvu 

og Minsk í Hvíta-Rússlandi.

Samantekt: Ívar H. Jónsson